Mál Sophiu Hansen og áhrif EES-samnings á byggðaþróun

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:56:11 (1272)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vestf. spyr tveggja mjög ólíkra spurninga í sömu spurningunni ef svo má segja. Það hefur ekki verið gerð nein ný úttekt af hálfu forsrn. vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og áhrif hans á byggð. Ég tel hins vegar einboðið að einmitt þessi samningur sé hagstæður og hagfelldur landsbyggðinni. Ég lít á þennan samning sérstaklega sem landsbyggðarsamning. Sjávarútvegurinn er öflugastur úti um landið og ég er ekki í vafa um að einmitt þessi samningur og þær atvinnuforsendur sem hann skapar er sá grunnur sem hægt er að leggja að nýsköpun í atvinnulífi og er landsbyggðinni afskaplega hagstæður.
    Varðandi Sophiu Hansen og mál hennar að þá hefur utanrrn. þegar lagt fram fjárhagslegar tryggingar og í fjáraukalögum verður ráðuneytinu bætt sú fjárhæð. Ég skal ekki segja til um hvort sú fjárhæð verður aukin frá því sem þegar er orðið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þótt þetta mál sé afskaplega viðkvæmt og vandmeðfarið þá eru fleiri sík mál í gangi sem menn hafa kosið að fara ekki með í fjölmiðla og reyndar er kannski ekki um jafnerfiðar aðstæður að ræða í þeim málum og í þessu tiltekna dæmi. Hér getur því verið um fordæmismál að ræða. En vegna sérstöðu málsins hefur utanrrn. þegar lagt út allnokkra fjárhæð sem ráðuneytinu verður síðan bætt upp í fjáraukalögum.