Framkoma ráðherra í utandagskrárumræðum

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:20:55 (1337)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki svo langt liðið umfram það sem síðasta þingskaparæða var haldin og vil ég því biðja forseta að vera ekki með áminningar af þessu tagi. En ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni varðandi fyrirkomulag þessarar utandagskrárumræðu af styttri gerðinni. Það hefur iðulega komið fyrir og er ólíðandi fyrir þá sem hefja þá umræðu eða taka þátt í henni að henni skuli ávallt ljúka með því að ráðherra eigi síðasta orðið. Það er að mínu mati eðlilegur gangur í umræðu sem þessari að málshefjandi eigi lokaorð í umræðunni. Því miður hefur þetta verið framkvæmt þannig að ráðherra hefur ávallt haft síðasta orðið og það hefur komið fyrir og það oftar en einu sinni að viðkomandi ráðherra hefur misnotað þá aðstöðu.