Sveigjanleg starfslok

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:39:24 (1467)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr þeim upplýsingum sem fyrirspyrjandi vitnaði til úr skýrslu landlæknis. Ég hlýt þó að nefna það að sjálfsagt er það svo að breyttar reglur um aukinn sveigjanleika af hálfu atvinnurekenda varðandi starfslok munu einar og sér ekki breyta allri mynd. Í því sambandi tel ég eðlilegt að vitna til þess að ýmsir aðilar svo sem Rauði kross Íslands hafa komið á laggirnar mjög þörfum starfslokanámskeiðum sem fjöldi fólks hefur nýtt sér til þess einmitt að undirbúa sig fyrir þessi miklu umskipti sem fyrirspyrjandi lýsti.
    Ég er líka sammála hv. þm. að þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi farið vaxandi og muni kannski vaxa nokkuð enn sé ekkert sem mæli gegn því að menn rifji upp þessa tillögu vegna þess að ef við mundum beita þeim rökum værum við að fallast á að sú þróun væri varanleg. Við hljótum að trúa því að svo sé ekki. Þess vegna er full ástæða til þess að ræða mál af þessu tagi eins og hv. fyrirspyrjandi hefur hér vakið upp.