Seta forsætisráðherra í borgarstjórn

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:35:22 (1541)



     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekkert mæla gegn því og í lögum er örugglega ekkert sem mælir gegn því. Ég minni á að seta í sveitarstjórn telst þegnskylda, skylduverkefni hvers borgara ef menn leggja að honum að gegna slíku starfi. Á hinn bóginn er ekki vafi á og ég ligg ekkert á því, að það kunna að fylgja því erfiðleikar að gegna báðum embættunum samtímis. Um leið vek ég athygli á að forsrh. er í þessu tilviki 1. þm. sama kjördæmis og hann er borgarfulltrúi fyrir og mundi þess vegna hafa mjög áþekk sjónarmið í huga sem 1. þm. kjördæmis og borgarfulltrúi.
    Ég vek líka athygli á að það hefur tíðkast í öðrum löndum að menn séu ekki bara forsætisráðherra eins og Chirac var í Frakklandi, heldur jafnframt borgarstjóri Parísar.