Fræðsluefni um EES

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 10:39:25 (1653)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er vissulega rétt sem fram kemur í hennar máli að stjórnvöldum ber auðvitað skylda til þess að kynna þetta mikla mál fyrir þjóðinni. Við höfum fengið þær niðurstöður úr könnunum utanrrn. að sú kynning sem fram hefur farið hingað til hefur í raun mistekist. Fólk gerir sér hvorki grein fyrir stærð þessa máls né inntaki og þess vegna er það mjög mikilvægt að þær vikur sem eftir eru verði notaðar til þess að kynna þetta mál rækilega. Ég minni á að innan skamms verður rædd hér tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vona að verði samþykkt á hinu háa Alþingi. Ef svo fer þarf auðvitað mjög mikil kynning að fara fram á málinu. Verði tillagan felld þarf engu að síður að eiga sér stað mikil og góð kynning því að þjóðin verður að gera sér grein fyrir því út í hvað við erum að fara hvort sem samningurinn verður samþykktur eða ekki.