Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:18:11 (1970)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að margir binda vonir við EES og þeim fjölgar meira að segja í flokki hv. þm. Ég vek að öðru leyti athygli á því að hún svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Hins vegar er það rétt að hér er e.t.v. ekki um kjarna málsins að ræða en mikilvægt atriði eigi að síður sem þarf að taka til umræðu. Ekki síst vegna þess að í þeirri greinargerð sem fylgir tillögu flm. kemur þessi endileysa líka fyrir. Það er í greinargerðinni á bls. 3.
    Ég verð að segja, sér í lagi með tilliti til ræðu þingmannsins áðan þar sem hún taldi nauðsynlegt að við færum að byggja upp hugvit og treysta meira á sérfræði, að ég er sammála henni um það. En sérfræðingarnir í þessum greinum, þ.e. sérfræðingarnir í sjávarútvegi og iðnaði hafa lýst blessun sinni yfir EES. Þeir telja að það treysti fyrirtækin og treysti atvinnuna. Hvers vegna ekki að fylgja leiðbeiningum þessara þingmanna, hv. þm.?