Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 15:04:50 (1982)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur um þau orð hv. síðasta ræðumanns að verja velferðarkerfið. Menn eru hins vegar ekki á einu máli um hvernig það skuli gert. Svo ég taki dæmi eru allir sem að þessum málum koma og hugleiða þau í alvöru sammála um að ef við ætlum að ná markmiðunum, sem hv. þm. nefndi, um að varðveita stöðugleika og lága verðbólgu, þá verður að grípa til aðgerða í ríkisfjármálum. Þetta vita allir. Það gengur ekki að setja sér það markmið að hafa stöðugleika í gengi en vera síðan með allt niður um sig í ríkisfjármálum. Það gengur ekki að setja sér það markmið að hafa stöðugleika í gengi og stöðugleika í verðlagi ef niðurstaðan í ríkisfjármálunum yrði 25 milljarða halli.
    Með öðrum orðum leiðir af þessari samstöðu að menn eru sammála um að það verður að taka út úr ríkisbúskapnum sjálfvirkan útgjaldavöxt. Það getum við gert hvort heldur er á sviði landbúnaðarmála eða á sviði svokallaðra velferðarmála og um leið styrkt velferðarkerfið vegna þess að velferðarkerfið verður að hvíla á traustum fjárhagslegum grundvelli. Munurinn er bara í því fólginn hvort menn vilja í hreinskilni viðurkenna raunsæi í þessum málum eða láta sér nægja að fara með orðakonfekt.