Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 14:57:01 (2031)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er ekki stórmannlegt að skýla sér á bak við einhverja sérfræðinga. Ég fæ ekki séð hvernig hæstv. ráðherra getur látið hjá líða að svara því undir þessum kringumstæðum hvenær eigi að hefja endurgreiðslur á þessu fé. Hér er komið mjög loðið svar hjá hv. 3. þm. Vestf. sem verður ekki skilið á annan veg en þann að ekki verði greitt af lánum --- nú væri vel ef þeir hlustuðu --- fyrr en búið sé að byggja Gilsfjarðarbrú. Það verður enginn ágreiningur ef þetta er það sem hæstv. þm. er að segja. ( Gripið fram í: Háttvirtur.) Við skulum hafa hann hæstvirtan að þessu sinni. Það er kjarni málsins. En ég vil hafa það á hreinu að samstaða um mál gildi ekki aðeins þegar menn eru í kosningaham heldur gildi hún líka eftir kosningar og lengi skal manninn reyna. Þess vegna gengur það ekki upp að tala hér um að það sé til að flýta fyrir vegagerðinni yfir Gilsfjörð að taka annað verkefnið fram fyrir en skilja hitt eftir í óvissunni. Það gengur ekki upp í málflutningi. Þetta veit hv. 3. þm. Vestf.
    Ég tel að ekki fari á milli mála að við í stjórnarandstöðunni munum óska eftir fundi um þetta mál í þingmannahópnum til þess að fá niðurstöðu og óska þá eftir viðveru ráðherra við þær viðræður.