Vegáætlun 1992

50. fundur
Þriðjudaginn 10. nóvember 1992, kl. 15:01:13 (2034)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég er búinn að sitja á þingi nokkuð lengi miðað við meðalaldur þingmanna eins og hann er nú og miklu lengur en margir hafa talið heppilegt. Og ég brýt dálítið heilann um hvort forsætisnefndin hin nýja og sú fjölmennasta sem stýrir þessu þingi og nokkurn tíma hefur stýrt --- það er eiginlega jafnmikið lið og var til að manna sexæringa í gamla daga meðan einn var hafður við stýrið --- hafi komist að þeirri niðurstöðu að nú skuli stjórna þinginu með sem minnstri tillitssemi við almenna þingmenn. Það er ekkert nýtt þegar mikil deilumál hafa verið rædd að óskað sé eftir því að ráðherrar séu við þegar verið er að tala um stórmál eins og framkvæmdirnar þær sem hér er fjallað um. Ég hygg að það væri hollt fyrir hæstv. forseta að kynna sér beiðnir þingmanna úr Norðurlandskjördæmi eystra sl. 20 ár til að átta sig á því hvaða vopnaburð hæstv. forseti er að taka upp. Ég hygg það væri hollt. Það er ekki til neinnar fyrirmyndar þegar forsetar sem eru nánast blautir á bak við bæði eyrun í þessum stól telja sig ekki þurfa að ráðfæra sig við aðra forseta þegar svona ákvarðanir eru teknar.