Framtíð herstöðvarinnar í Keflavík

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 10:53:44 (2136)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Þau voru að vísu ekki mjög nákvæm en þess var kannski ekki að vænta því eins og fram kom í hans máli hafa þeir atburðir nú gerst í Bandaríkjunum að þar hefur verið kjörinn nýr forseti. Það er auðvitað enn óljóst hvort kjör hans hefur í för með sér einhverjar stefnubreytingar.
    Á kosningafundum forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum kom fram að það var nokkur áherslumunur í þeim niðurskurði sem þeir nefndu. Það er ljóst að Bandaríkjamenn munu halda áfram að skera niður herafla sinn í Evrópu. Clinton, hinn nýkjörni forseti, nefndi töluna 100 þús. hermenn. Við vitum náttúrlega ekkert um það hvar sá niðurskurður mun koma niður.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er afar brýnt að við fylgjumst með þessum málum og að mótuð verði stefna til frambúðar. Það dylst auðvitað engum að við þurfum að fylgjast með því sem gerist í kringum okkar land. Þó nú horfi friðsamlegar eru enn bæði herskip og kafbátar á ferð umhverfis landið. Ekki síst þurfum við að fylgjast með því ef slys eiga sér stað. Og við þurfum að móta framtíðarstefnu.
    Eins og fram kom í máli utanrrh. er margt óljóst í þessum efnum. En ég held að það sé alveg ljóst að hér mun verða frekari niðurskurður og það brýnir fyrir stjórnvöldum að við verðum að huga að atvinnusköpun á þessu svæði. Það er að mínum dómi eitt mikilvægasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ástandið í atvinnumálum á Suðurnesjum er mun verra en annars staðar á landinu.