Hvalveiðar

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:19:05 (2149)

     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég tek innilega og einarðlega undir sjónarmið hv. 5. þm. Vesturl. Ég get tekið undir það að við eigum ekki að hugsa og rökræða lengur um þessi mál heldur hefja hvalveiðar og þar með hrefnuveiðar. Ástandið er ekki gott og við þurfum að bæta atvinnuástandið. Þessum dýrum fjölgar svo í hafinu umhverfis landið að það veldur fjölmörgum miklum áhyggjum og við eigum að nýta okkur þessa stofna innan ákveðinna marka eins og við höfum alltaf gert.
    Ég vil út af því sem hv. 18. þm. Reykv. sagði um sjónarmiðin og það að fara varlega, gætilega og rólega segja að við lifum ekki á sjónarmiðunum einum. Við þurfum séstaklega núna á því að halda að auka atvinnu í landinu og efla framleiðslu þjóðarinnar og við eigum ekki að vera það lítilfjörleg að við látum einhverja menn, þótt það séu voldugir menn í Bandaríkjunum, hræða okkur.