Virðisaukaskattur á heimilisiðnaði

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:25:54 (2179)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Það sem fyrir mér vakti með fsp. var að ég vildi benda á það misræmi sem þarna á sér stað og skapar þeim sem þessa framleiðslu stunda núna ákveðið óhagræði að sitja ekki við sama borð þó þeir séu að vinna að sömu störfum og hafi, eins og er í mörgum tilfellum, myndað með sér samstarfshóp til að vinna að þessu og selja síðan framleiðsluna en sitja ekki við sama borð við að selja sína framleiðslu inn á markaðssvæði. Ekki er endilega verið að tala um að auka þurfi frádráttinn heldur að þarna sé ákveðið samræmi á milli. Í því sambandi mætti vel hugsa sér að prósentan væri lækkuð og gilti fyrir alla jafnt. Ég tel það miklu hagstæðari leið en að vera með undanþágu hjá einum sem ekki gildir í öðru tilfelli.