Virðisaukaskattur á heimilisiðnaði

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:27:14 (2180)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skil mjög vel hvers vegna þessi fsp. er flutt. Hún er flutt til þess að vekja athygli á því misræmi sem kemur upp t.d. þegar hópur kvenna vinnur saman að því að framleiða heimilisiðnaðarvörur til sölu. Þá kemur í ljós að hluti kvennanna getur notið þessarar reglu upp á 183.000 kr. á meðan annar hópur, sem stundar framleiðslustarfsemi, hvort sem það er til sveita eða bæja, getur ekki nýtt sér heimildina af því að hún er uppurin þar sem sala fyrirtækisins eða búsins er með þeim hætti.
    Ég vil eingöngu segja að auðvitað er gott og gilt að samræma sjónarmið en í þessu tilviki er þó meginstefnan sú að það eigi að koma í veg fyrir undantekningar sem allra mest vegna þess að undantekningarnar eru ákaflega erfiðar fyrir þá sem sinna eftirlitshlutverkinu. Þess vegna hefur það verið straumurinn, ekki aðeins hér á landi heldur annars staðar líka, að koma í veg fyrir svona undantekningar og gera alla söluna skattskylda hvort sem um er að ræða 1 kr. eða 180.000 kr.
    Ég er ekki með þessu að segja að það liggi fyrir tillögur um að breyta þessu nú en bendi á að sú hugmynd sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er um að fara í öfuga átt við það sem sá straumur virðist liggja sem nú ræður ríkjum um þessar mundir, þ.e. að gera alla jafna fyrir lögunum og koma í veg fyrir undantekningarnar.