Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:00:28 (2194)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Því miður verð ég að gera athugasemdir við þær tillögur sem ráðherra kynnir hér og harma í leiðinni að sá maður sem fer með þennan málaflokk og er æðsti maður Stofnlánadeildar skuli ekki hafa leitað eftir samráðsfundi með stjórn deildarinnar. Ég tel mikilvægt að það eigi sér stað því að svo óljósar eru þessar tillögur sem hér liggja fyrir.
    Ég vil að vísu lýsa því yfir að ég hef alltaf verið fylgjandi mikilvægum aðgerðum til þess að bjarga því fólki og þeirri búgrein sem loðdýraræktin er til þess að hún geti horft til framtíðar. Hér sýnist mér því miður að komnar séu upp á borðið tillögur sem segi það í rauninni að þessi starfsgrein muni líða undir lok. T.d. er ljóst að minkaskinnin hafa verið að lækka enn í verði, sá tími er alltaf að lengjast og voru þau lægst í september. Mér sýnist að með því að ákveða það heilt og klárt 1994 að fella niður jöfnunargjald á loðdýrafóður muni þeir sem eftir eru fara á hausinn og allar fóðurstöðvar.
    Ég vil alla vega spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér í sambandi við skinnaverð, hvort hækkun sé í sjónmáli.
    En ég verð að lýsa því yfir að deildin hefur, hæstv. forseti, unnið markvisst að því að kanna stöðu loðdýrabænda og er tilbúin eftir þeim leiðum sem hún hefur að semja við þá um niðurfellingu, bæði þá sem starfandi eru og ekki síður hina sem hættir eru starfsemi.
    Ég hefði heldur kosið að eiga um þetta fund með ráðherra þar sem hægt væri fyrst og fremst að huga að því verkefni sem mikilvægast er, að tryggja framtíðarstöðu greinarinnar. (Forseti hringir.) Því miður, forseti, þyrfti ég að fá að halda miklu lengri ræðu en tíminn er liðinn.