Frumvarp til jarðalaga

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:42:46 (2263)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Sökum þeirra fyrirspurna sem kom frá hv. þm. um það hvort stjórnarflokkarnir ættu í einhverju basli með frv. að jarðlögum, þá er rétt að það komi fram að þeir eiga ekki í nokkru basli með það. Báðir stjórnarflokkarnir hafa fyrir sitt leyti samþykkt framlagningu frv. Þeir einu sem virðast eiga í basli með þetta frv. er stjórnarandstaðan og það meira að segja áður en það er komið fram á þinginu. Það er fyrst og fremst stjórnarandstaðan sem hefur verið að setja puttana í þetta. Þó vil ég minna hv. þm. Jóhannes Geir á að formaður Framsfl. hefur lýst gleði sinni og ánægju yfir þessu frv. í fjölmiðlum. Hann hefur hingað til verið iðinn og duglegur við að taka línuna og ég hvet hann til þess að halda því áfram. Að öðru leyti ef hann er andsnúinn því að fjölmiðlar fjalli um frv. ætti hann fyrst að beita ítökum sínum í blaðstjórn Tímans til þess að koma í veg fyrir að Tíminn geri það því að hann hefur mest allra blaða skrifað um frv. Ef það er ekki nóg fyrir hann, þá tel ég að hann ætti að leggja hér fram frv. að nýjum ritskoðunarlögum sem banni blöðum að fjalla um hluti eins og þessa.