Sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:42:55 (2301)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. taldi sig ekki geta staðfest það sem hér kom fram en þó kemur hér greinilega fram að bókun 9 við EES-samninginn mun ekki taka gildi ef þessi samningur hefur ekki náðst. Það er því greinilegt að EB hefur þarna tangarhald á Íslendingum, sérstaklega ef ætlunin er að reyna að keyra EES-samninginn í gegnum Alþingi áður en sjávarútvegssamningurinn er frágenginn. Mín spurning var fyrst og fremst þess vegna, hvort þetta kemur þá ekki fyrr en í byrjun næsta mánaðar, en hingað til hefur verið talað um það að umfjöllun utanrmn. um EES-samninginn ætti að ljúka fyrir mánaðamót og þá væntanlega ræða hann hér á Alþingi fljótlega, en ég tel það auðvitað ekki hægt. Ég vil því spyrja ráðherrann aftur hvort þetta séu þá ekki réttar upplýsingar sem hér komu fram, að bókun 9 muni ekki taka gildi nema sjávarútvegssamningurinn liggi fyrir. Jafnframt vil ég spyrja um það að aðildarríkin hafa hafnað öllum hugmyndum um að Íslendingar geti fylgst með löndunum í höfnum EB, hvort það sé þá ekki rétt sem hér kom fram.