Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:40:58 (2362)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er mjög bagalegt þegar ráðherra svarar ekki þeirri beinu spurningu sem beint er til ráðherrans. Hvaða tillögu lagði ráðherrann fram í ríkisstjórninni? Því er ekki svarað. Hér er lesið upp eitt og annað. En það sem blasir við sem staðreynd fyrir venjulegan þingmann er að það er engin samþykkt langtímavegáætlun til. Það er aðeins til samþykkt áætlun til fjögurra ára. Þar er verið að taka ákvörðun um að það verk, sem fékk fjárveitinguna árið 1993, eigi ekki að fara af stað en þeir sem fengu ekki peninga á því ári eigi nú að fá fjármagn. Og það er líka verið að taka ákvörðun um að þetta eigi að takast með lánum og það eigi að endurgreiða lánin af þessum lið. Það hefur verið upplýst af fjmrh. að sú endurgreiðsla hefjist þegar búið sé að byggja brúna yfir Kúðafljót. Þetta þýðir það að þeir peningar, sem hugsaðir voru í þeirri langtímaáætlun sem lögð var fram en ekki samþykkt, eiga samkvæmt þessu að fara í að greiða það mannvirki. Þetta hlýtur hæstv. félmrh. að gera sér grein fyrir.
    Ég bið ekki um neinar langar skýringar á því hvað ráðherrann ætli sér að gera í þessum efnum. Ég vil fá upplýst hvað ráðherrann lagði til á ríkisstjórnarfundinum vegna þess að stuðningsmenn ráðherrans fyrir vestan hafa haldið því fram að ráðherrann hafi þar lagt til að farið yrði í brúargerð yfir Gilsfjörð. Annaðhvort verða þeir gerðir ómerkingar þeirra orða eða ráðherrann hefur þor til að svara þessu.
    En það er meira í bréfum ráðuneytisins en það hafi verið að tala um athuganir. Hér stendur í bréfi: ,, . . .  til athugunar og fyrirgreiðslu``. Þetta bréf er ritað á því tímabili sem hæstv. núv. félmrh. var ráðherra. Ég vara við þeim blekkingaleik að vera að telja fólki úti um land trú um að það eigi að framkvæma hluti eins og samgöngubætur ef ekkert stendur á bak við (Forseti hringir.) og breytir þar engu bjölluhljómur forseta.