Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:46:30 (2364)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög undarlegur málflutningur, satt að segja. Tveir hv. þm. Vestf., 2. þm. og 5. þm., hafa lagt sig sérstaklega fram um það að gera fyrirhugaðar framkvæmdir við Gilsfjörð tortryggilegar. Hv. 2. þm. Vestf. gerir það með því að óska eftir utandagskrárumræðu og beina spurningum sínum til félmrh. og hv. 5. þm. Vestf. gefur út sérstakar fréttatilkynningar í vestfirska fréttablaðinu um það að Vestfirðingar hafi verið sviknir um Gilsfjarðarbrú. Ég verð að segja eins og er, virðulegur forseti, að þegar þessi umrædda framkvæmd er ekki á dagskrá að öðru leyti en því að hún er að sjálfsögðu inni á vegáætlun, þá skil ég ekki þann málflutning sem er að því er virðist einungis gerður til þess að gera þetta mál tortryggilegt og vekja ugg hjá því fólki sem leggur mjög mikla og eðlilega áherslu á að Gilsfjarðarbrú verði byggð eins og gert er ráð fyrir.
    Allt tal um að þessi framkvæmd sé tilbúin er á misskilningi byggt. Það liggur fyrir að undirbúningi er ekki lokið og það ætti hv. 4. þm. Norðurl. e. t.d. að þekkja. Ég hef aflað mér upplýsinga um að það þarf m.a. að hefja verulegar framkvæmdir til að undirbúa hönnunina. Það þurfa að fara fram sprengingar til þess að rannsaka berg og margt fleira sem tengist forathugun og undirbúningi þessarar framkvæmdar og ég vara við því að hv. þm. séu að vaða fram með slík mál einungis til þess að gera það tortryggilegt og vekja ugg hjá því fólki sem á svo mjög undir því að þessi mikilvæga samgöngubót komist á.