Umboðsmaður barna

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:38:32 (2377)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Flm. frv. um umboðsmann barna á síðasta þingi, hv. 14. þm. Reykv., hefur flutt málið á fjórum þingum alls. Það er ljóst að af hennar hálfu og okkar alþýðubandalagsmanna er lögð rík áhersla á úrbætur í þessum efnum. Hins vegar kom það fram á síðasta þingi að skoðanir voru nokkuð skiptar um það hvort þörf væri á þessu embætti eða með hvaða hætti ætti að sinna þessu verkefni. Því var gert samkomulag um að fela sifjalaganefnd athugun á þessu úrlausnarefni og svör hæstv. ráðherra staðfesta að við það samkomulag hefur verið staðið. Þau sjónarmið sem uppi voru voru þau að e.t.v. væri rétt að umboðsmaður Alþingis hefði þetta verkefni með höndum eða einhverjir aðrir. Ég vil segja að þótt mér þyki kosturinn ,,umboðsmaður barna`` bestur er ég tilbúinn að skoða hina kostina.
    Ég vil beina því til hæstv. dómsmrh. að hraða þessu máli eftir föngum.