Endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:33:09 (2412)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að nefndin mundi skila áfangaskýrslu um miðjan desember um innra starf og mat á skólum sem yrði umræðugrundvöllur fyrir málið og nefndin mundi síðan ljúka störfum í lok mars. Með öðrum orðum yrðu stefnumarkandi ákvarðanir ekki teknar fyrr enn að umræðu lokinni. Það rímar ekki við þær upplýsingar sem fyrir liggja um yfirlýsingar formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar A. Þórðardóttur, um að sú ákvörðun hafi þegar verið tekin í nefndinni að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga --- sú ákvörðun hafi þegar verið tekin. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að sú tillaga er líka komin fram í skýrslu svokallaðrar sveitarfélaganefndar á hvaða verði sveitarfélögin eigi að yfirtaka þetta verkefni. Er það miðað við fjárveitingar eins og þær eru núna? Er það miðað við viðmiðunarstundaskrá eins og hún er og er ekki uppfyllt? Eða er það miðað við þær kröfur sem menn munu gera í þessari lokaskýrslu nefndarinnar um skólastarf?