Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 17:16:33 (2513)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir gengur hreint til verks. Það virðist gilda um ástir sem annað. Hann ber sýnilega lítið skyn á það sem heitir á virðulegum tungum ,,foreplay`` og við höfum stundum kallað tilhugalíf eða forleik.
    Það er að sönnu rétt að hugur minn til Framsfl. hitnar æ meir. Mér hefur lengi líkað ágætlega við þann flokk. En þó tel ég að ást mín á honum sé stórlega ýkt í þessum umræðum.
    Það er hins vegar alveg ljóst, virðulegi forseti, að misskilningurinn heldur áfram að ríða húsi Framsóknar. Það var ekki ég, hv. þm. Jóhannes Geir, sem dró inn í þessa umræðu þá hugmynd að verja hluta af andvirði frá sölu Búnaðarbankans til þess að byggja upp ferðaþjónustu. Það var Framsfl. sem samþykkti að leggja fram þessa þáltill. hv. 1. þm. Austurl. Það var ekki ég.
    Hv. þm. kallaði það orðagjálfur eitt að verja eigi þessu fé til uppbyggingar eða til rannsóknar og þróunar. Ber að skilja það svo, virðulegu framsóknarmenn sem hér eru staddir, að grunnur tillögu hinnar ágætu framsóknarkonu að austan, hv. þm. Karenar Erlu Erlingsdóttur, sé orðagjálfur? Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af því sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sagði.
    Ég vil að endingu segja varðandi afstöðu mína til Búnaðarbankans að þá hefur það komið mjög skýrt fram að ég tel að það eigi að breyta sumum ríkisfyrirtækjum í hlutafélög. Hvort selja eigi einhverja hluti úr þeim fer eftir efnum og aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni. Ég vil að það komi skýrt fram hér til þess að valda ekki vinum mínum í Framsfl. hugarangri að fari svo að ég tælist til stuðnings við þessa tillögu, þá hef ég enn fullan fyrirvara á því hvort ég vil taka þátt í því að selja Búnaðarbankann eins og virðist koma fram í þessari tillögu.