Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:38:37 (2529)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri æskilegt að hv. formaður þingflokks Alþb. svaraði því mjög skýrt vegna þess að eftir því verður tekið: Er formaður þingflokks Alþb. að boða stefnu þess flokks þegar hann leggur það til og þykir það sjálfsagt mál að lagður verði á 15% skattur í hvert skipti sem sparisjóðsbækur gamla fólksins eru gerðar upp til vaxtagreiðslna án þess að inn í það komi nokkurt einasta frítekjumark? Eru það hugmyndir Alþb. og talar hv. þingflokksformaður í nafni flokksins þegar hann segir að Alþb. sé tilbúið til þess að undanþiggja alla aðra en leggja bara undanþágulausan, frítekjumarkslausan skatt á sparnað gamla fólksins í landinu? Svar óskast.