Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:44:36 (2656)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegu forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það urðu afskaplega leið mistök við samsetningu frv. Þar rugluðust hugtök sem gerðu tilteknar greinar frv. óskiljanlegar. Það er hárrétt að það var ekki fyrr en sérfræðingarnir komu til sem menn fengu botn í það. Eftir að það gerðist varð þetta hins vegar allt miklu skýrara. Ég tel, virðulegi forseti, að skylda þingmanna, sem vilja fá upplýsingar um hluti eins og frv. sem hér liggja fyrir, sé að lesa a.m.k. greinargerð með frv.
    Það eru fyrst og fremst tvö hugtök sem mér virðast hafa vafist fyrir hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Það er annars vegar smárás og hins vegar svæðislýsing. Á bls. 3 er útskýring á þessu. Þingmaðurinn getur lesið hana. Á bls. 4 er útskýring á hugtakinu svæðislýsing. Ég reifaði hana sömuleiðis áðan. Ég held, virðulegi forseti, að það væri affarasælast fyrir þá sem hafa svona mikinn áhuga á þessu máli að lesa greinargerðina með frv. Hún skýrir það næsta vel. Þaðan er minn skilningur að meira eða minna leyti kominn en ekki frá neinum sérfræðingum af þeirri einföldu ástæðu að greinargerðin skýrir þetta svo einkar vel.