Lögbýli í sveitum

62. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 10:46:54 (2683)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Árið 1990 féll út í húsnæðislánakerfinu lánaflokkur um útrýmingu á heilsuspillandi húsnæði. Síðan það gerðist er hópur fólks utan við alla lánsmöguleika í húsnæðislánakerfinu. Hér er átt við fólk sem býr á lögbýlum í sveitum, hefur ekki nægar tekjur til að komast inn í húsbréfakerfið og lögum samkvæmt er ekki hægt að byggja félagslegt húsnæði á lögbýli. Ég veit nokkuð mörg dæmi um barnmargar fjölskyldur í sveit sem búa í ónýtu, heilsuspillandi húsnæði, þurfa að byggja en eru utangarðsmenn samkvæmt lögum og reglum Húsnæðisstofnunar. Ég spyr því hæstv félmrh.:
    Hvernig hyggst hún opna þessu fólki leið inn í húsnæðislánakerfið? Hyggst hún tryggja rétt eigenda eða ábúenda lögbýla í sveitum til félagslega húsnæðislánakerfisins eða verður á ný opnaður sérstakur lánaflokkur á kjörum félagslega kerfisins til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði í sveitum?