Kjaradeila sjúkraliða

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 15:58:42 (2890)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en lýst miklum vonbrigðum með ummæli og svör hæstv. fjmrh. áðan. Þið vitið það öll að það ríkir mjög alvarlegt ástand á sjúkrahúsunum í borginni. Samt leyfir hæstv. fjmrh. sér að segja að það verði ekki kallaður saman samningafundur fyrr en sjúkraliðar láti af aðgerðum sínum. Þetta er auðvitað ekki líðandi. Þessi deila snýst fyrst og fremst um réttindi. Hún snýst um það að sjúkraliðar úti á landi haldi sínum réttindum og að sjúkraliðar í heild fái þá 1,7% launahækkun sem samið var um við annað launafólk fyrr á þessu ári. Mér vitanlega hefur það aldrei tíðkast hér á landi að semja um skert réttindi launafólks. Það hefur heldur ekki tíðkast að semja um launalækkanir síðan á kreppuárunum. Þar af leiðandi gengur það ekki að ætla að knýja þetta stéttarfélag til að semja af sér fyrir félagsmenn sína úti á landi.
    Ég skora á hæstv. fjmrh. að sýna örlitla stjórnvisku og kalla saman samningarnefndarfund þegar í stað, fund með deiluaðilum, og hætta þessum hótunum. Því var lofað á sínum tíma að réttindi sjúkraliða og annarra þeirra sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga nær til yrðu ekki skert. Við það á að standa. Hæstv. fjmrh. á næsta leik.