Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:50:38 (2910)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Á tæpum tveimur árum hefur þrívegis orðið stórtjón á dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins, mest á Norðurl. v. Þetta var í janúar 1991, nóvember 1991 og nóvember 1992. Dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins er víða komið nokkuð til ára sinna eða 30--40 ára gamalt og er að koma þreyta í kerfið. Dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins er samtals 6.500 km þannig að hér er um mjög viðamikið kerfi að ræða sem kostar mikla fjármuni að endurbyggja. Framlög hafa farið lækkandi frá ríkissjóði en Rafmagnsveitur ríkisins geta ekki tryggt línukerfið eða aðrar eigur vegna þess að ríkissjóður hefur bannað að eigur ríkisins væru tryggðar og ríkissjóður vill heldur greiða tjón þegar þau verða veruleg að einhverju marki. Ég geri ráð fyrir að vegna tjóns, sem nýverið hefur orðið, verði sótt til ríkissjóðs um það að greiða a.m.k. hluta tjónsins. Það er ókleift fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að standa undir endurbyggingu dreifikerfisins án þess að annað tveggja komi til, fé af almannaframlögum ellegar með verulegum gjaldskrárbreytingum. Sums staðar hefur verið farin sú leið t.d. í Bretlandi að orkuöflunin hefur greitt fyrir hluta af dreifikerfi eins og þar er t.d. í Skotlandi og er það sú leið sem hefur verið farið fram á við stjórnvöld að hér verði reynd ella að ríkissjóður legði fram að einhverju marki fé meira en nú gerist til þessara verkefna. Ef það gerist ekki verður óhjákvæmilegt að vinna þetta verk og hækka þá gjaldskrá og auka verðmun á orku í landinu sem því nemur.