Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:55:16 (2912)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Vesturl. fyrir að taka þetta mál upp í hæstv. þingi. Ég tel að hér sé um afar mikilvægt mál að ræða, það hefur komið fram áður. Ég flutti fsp. á síðasta þingi til hæstv. iðnrh. um hvað liði áætlun um uppbyggingu og styrkingu dreifikerfis í sveitum. Um þetta getum við rætt og haft uppi langt mál. Það liggur fyrir að dreifikerfið er veikt en spurningin er hins vegar sú hvernig á að fjármagna uppbyggingu dreifikerfisins. Ég vil vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. og ég undirstrikaði sérstaklega í ræðu minni hér á síðasta þingi að það verður að tryggja fjármögnun þessara dreifikerfa með því að frá orkuöflunarfyrirtækjunum komi einhvers konar framlag til uppbyggingar á dreifikerfi í sveitum landsins. Það er óhjákvæmilegt að orkuvinnslufyrirtækin taki á þann hátt þátt í styrkingu raforkudreifikerfisins. Það er vitnað til þess og kom fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar að þetta tíðkast í öðrum löndum og við verðum að skoða þetta. Það er hins vegar eins og hér hefur komið fram mikill kostnaður við þessa uppbyggingu en hún er óhjákvæmileg og við verðum að líta til þess þó því miður hafi ekki verið hægt á undanförnum árum að leggja mjög mikið fjármagn í uppbyggingu dreifikerfis í sveitum.