Samningar við EB um fiskveiðimál

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 19:03:14 (2998)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé enginn misskilningur í þessu máli. Öllum er ljóst að í erindaskiptunum var kveðið á um skipti á veiðiheimildum. Allir þekktu staðreyndir um þá fjölmörgu samninga sem eru í gildi og að þeir eru skilgreindir um skipti á gagnkvæmum á veiðiheimildum. Verkefni okkar í samningunum var að skilgreina gangkvæmnina við ólíkar aðstæður og eins og fram kom í minni framsöguræðu, að tryggja það að ef loðnan brygðist þá yrðu karfaveiðar teknar til endurskoðunar. Ef loðnustofninn bregst þá þýðir það að enginn kvóti er gefinn út og þá verður ekki um neinar karfaveiðar að ræða og sama er að segja ef kvótinn er skorinn niður eftir upphaflegar úthlutanir. Með öðrum orðum, ég held að það sé alveg óþarfi að vera að ala á misskilningi og ég held að það sé enginn misskilningur. Þetta voru erindaskipti um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum og síðan hefur verið reynt í útfærslu í tvíhliðasamningi að tryggja og skilgreina nákvæmlegar gagnkvæmnina í þessum skiptum. Og ég held að það gefi ekki tilefni til stórra orða.