Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 10:55:43 (3044)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram um gæslu þingskapa taka undir orð hv. formanns fjárln. Starfið í fjárln. hefur gengið vel síðustu vikurnar. Það er mikið starf sem þar fer fram og tekur mikinn tíma og ég tel því að þrátt fyrir það að ekki hafi enn komið fram tillögur ríkisstjórnar um aðgerðir þá hafi það ekki í neinu tafið starf nefndarinnar. Sem betur fer hefur verið og er ágætur starfsandi þar og það hefur tekist að þoka málum þar fram á þann veg að eins og nú horfir eru engar líkur á öðru en að það takist að taka frv. til 2. umr. næsta þriðjudag. Ég vænti þess að þrátt fyrir það að tillögur komi síðar fram takist okkur þetta. Að öðrum kosti þarf að endurskoða þá áætlun.
    Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. vil ég segja að það er aldrei of snemmt að þakka hv. þm. fyrir gott starf og ágætt samstarf. Hins vegar kemur það mér á óvart að þeir skuli sakna svo mjög þess að fá tillögur til niðurskurðar. En það er í mörg horn að líta og alveg augljóst að það verður að taka á við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem nú eru til umræðu í þinginu og fjárln. mun vafalaust fá mörg erfið viðfangsefni á næstu sólarhringum. En ég legg áherslu á það og vænti þess að við eigum gott samstarf og okkur takist að ljúka þessu starfi á þeim tíma sem við ætlum okkur núna.