Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:12:35 (3051)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum til hvers menn geta gripið þegar þeir eru rökþrota. Það er alveg hárrétt sem hv. formaður fjárln. sagði, ég var í hálfan mánuð á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þar voru einnig tveir aðrir hv. þm. í fjárln. Og ég held að ekkert okkar hafi misst af neinu á meðan. Og ekki heldur hv. formaðurinn sem var viku í burtu á fundi Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þetta eru því auðvitað engar skýringar. Þingmenn sinna að sjálfsögðu öllum sínum störfum þrátt fyrir veru sína í hv. fjárln. En við höfum setið þarna næstum hvern dag síðan snemma í haust og það hefur ekkert gerst vegna þess að við höfum ekkert vitað hvað við áttum að gera. Það er ekki hægt að deila út fé ef maður veit ekki hversu mikið fé maður hefur.
    Síðast í morgun, svo hv. þingheimur viti það, sat hv. formaður landbn., hv. þm. Egill Jónsson, og rakti fyrir nefndinni og formanni hennar og stjórnarliðinu ástand mála og fjárvöntun varðandi búvörusamninga. Það er því hvorki haus né hali á þessari vinnu. Ég held að það sé gjörsamlega tómt mál að tala um að þessi umræða geti hugsanlega farið fram á þriðjudaginn og það á auðvitað hv. formaður fjárln. að horfast í augu við. Mér heyrist ekki betur en hæstv. fjmrh. geri það. En ég vil vara menn við því að grípa til þess að tíunda það hvað hv. þm. gera annað en að sitja í hv. fjárln. því þá gæti maður farið að ræða um aðra hluti um viðveru hv. fjárlaganefndarmanna.