Afgreiðsla mála fyrir jólahlé

70. fundur
Föstudaginn 04. desember 1992, kl. 11:21:31 (3058)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil andmæla því að slitin er í sundur umræðan um vegamál frekar en þingskapaumræðan gerði. Ég undrast það mjög að hæstv. forseti skuli ætla að leggjast í það mikla verkefni að ráðast í atkvæðagreiðslu og spyr: Hvað olli því að ekki var hægt að viðhafa atkvæðagreiðslu um 3. dagskrármál við lok umræðu í gær? Var það vegna þess, virðulegi forseti, að það er orðinn siður hér að því er virðist hjá stjórnarliðum að raða dagskrá og afgreiðslu mála þannig upp að hægt sé að gefa stjórnarþingmönnum frí, þannig að þeir þurfi ekkert að vera að hanga hér yfir okkur þingmönnum stjórnarandstöðu sem erum að hafa uppi skoðanir og láta þær í ljós á einstökum málum? Það voru ekki nema sex stjórnarþingmenn í salnum í gærkvöldi þegar ræddur var samningurinn við EB um fiskveiðimál og ég minnist þess ekki að neinn af þeim sex hafi verið fulltrúi stjórnarliðisins í sjútvn. Það var ekki einu sinni svo að sjávarútvegsnefndarmenn gætu séð sóma sinn í því að vera viðstaddir til að hlýða á mál manna.

    Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Hvað olli því að atkvæðagreiðsla fór þá ekki fram strax að lokinni umræðu? Og fyrst atkvæðagreiðsla fór ekki fram þá hvað olli því að það var ekki fyrsta dagskrármál þessa fundar? Þurfti að gefa stjórnarliðum frí þannig að þeir væru örugglega komnir? Var ekki hægt að treysta því að þeir væru mættir hér klukkan tíu í morgun?