Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:10:17 (3194)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar þá hafði ríkisstjórnin tvo talsmenn í þeim málaflokki í umræðunum í þinginu, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Styrking fjárlagafrv. var eitt af höfuðatriðunum í þeim aðgerðum og þess vegna er ósköp eðlilegt, hæstv. utanrrh., að fyrirspurnum sé þess vegna beint til hæstv. utanrrh. hér og nú að hæstv. forsrh. fjarstöddum. Auðvitað tókum við eftir því, hæstv. utanrrh., að fjmrh. var ekki talsmaður ríkisstjórnarinnar í þeim umræðum og ef ég man rétt, kvaddi sér ekki einu sinni hljóðs í þeim umræðum. Það væri því bara ósanngjarnt að fara nú á seinni stigum að draga hæstv. fjmrh. inn í þetta mál því að hann er greinilega í algeru aukahlutverki í þessari atburðarás. En það segir svo kannski meira en stutt ræða hæstv. utanrrh. að nú allt í einu er hann farinn að vísa umræðunni frá sér yfir á hæstv. fjmrh. Nú er ekki lengur mættur sá galvaski hæstv. utanrrh. sem hér mætti á mánudagsmorguninn eftir aðgerðirnar, reiðubúinn að tala fyrir þeim. Nú vísar hann spurningum frá sér.
    Ef talan 8 milljarðar er ekki rétt, þá spyr ég tæpum sólarhring fyrir 2. umr. fjárlaga: Hver er hin rétta tala? Þeir hljóta að vita það. Eða er virkilega ringulreiðin orðin svo mikil að menn viti það ekki í ríkisstjórnarherbúðunum tæpum sólarhringi áður en 2. umr. fer fram hver er hin rétta hallatala? Er hún eitthvert leyndarmál í þinginu? ( GunnS: Hvert er þingskapaefni ræðumanns?) Ég get vel skilið að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sem á að heita fulltrúi Alþfl. í fjárln. uni sér illa undir umræðum og er rétt að ég spyrji hann þá: Getur hann upplýst þingið um það hver er hallatalan? ( GunnS: Hvert er þingskapaefni ræðumanns?) Þingskapaefni ræðunnar er það, hv. þm., að koma því á framfæri að ef ekki er hægt að greina frá því í fjárln. tæpum sólarhring áður en 2. umr. um fjárlagafrv. fer fram, hver er hin raunverulega hallatala fjárlagafrv., þá getur 2. umr. ekki farið fram á morgun. Það er hið þingskapalega tilefni umræðunnar, hv. þm., og fyrst hann á sæti í fjárln., þá er rétt að hann beiti sér fyrir því að nú þegar síðdegis verði haldinn fundur í fjárln. og þar komi fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna og segi fjárln. í heild sinni hver er hin raunverulega hallatala því að ef ekki er hægt að gera það með rökum, þá getur 2. umr. ekki farið fram á morgun. Það er staðreynd málsins. Það hefði mátt spara sér mikla þingskapaumræðu í dag ef utanrrh., fjmrh. eða fulltrúar stjórnarflokkanna í fjárln. hefðu strax og hv. þm. Guðmundur Bjarnason kvaddi sér hér hljóðs komið með þær upplýsingar sem verið er að biðja um, en þær eru ekki komnar enn, hv. þm.