Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:59:09 (3420)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það er enginn endir á hvernig umræða fer fram hér í dag. Það kann að vera að það sé ekki sök hæstv. forseta heldur fullkomins sambandsleysis þingflokksformanna við almenna hv. þm. Eitt er að menn semja um ákveðinn tíma til að ræða ekkert ómerkara mál en EES-samninginn og maður verður að bíta í það súra epli að vera afgreiddur út af mælendaskrá. Síðan á að fara að tala hér fyrir málum sem eru að koma úr nefnd. Það vill svo til, hæstv. forseti, að þegar þetta mál var rætt við 1. umr. gerði ég við það nokkrar athugasemdir og tel mig því þurfa að ræða aðeins við hv. formann efh.- og viðskn. um þær.
    Og ætla að bjóða upp á það að hér verði farið að ryðja út nefndarálitum. Ég ætla ekki að halda langa ræðu, hæstv. forseti. Ég vil aðeins fá tækifæri til að gera athugasemd við þetta mál, bæði til þess að þakka fyrir það sem tekið hefur verið til greina og ræða annað sem ekki hefur verið tekið til greina. Ég vil gjarnan að hæstv. viðskrh. sé þá viðstaddur og heyri það. Hvað er á móti því? Ég á ekki von á langri umræðu um þetta mál og ég mótmæli harðlega að fá ekki að koma athugasemdum mínum á framfæri.