Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:05:45 (3425)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins benda á það sem kemur fram í brtt. vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið að hér er um að ræða löggjöf sem ekki á að taka gildi fyrr en 1. júlí 1993. Þetta eru mál sem hefur verið ágætt samstarf um en er í sjálfu sér engin ástæða til að ræða mjög lengi á þessum fundi. Ég vil benda á að nokkrir nefndarmanna eru fjarverandi og nefndarmenn sem höfðu ætlað sér að taka þátt í þessari umræðu.
    Þar sem hér er um mál að ræða sem ekki þarf að afgreiða fyrr en á fyrstu mánuðum næsta árs þá finnst mér óþarfi að verið sé að eyða dýrmætum tíma þingsins í þau. Hér er um mál að ræða sem snerta ekki beint hið Evrópska efnahagssvæði en tekur mið af því í nokkrum atriðum. Það má því segja að e.t.v. sé eðlilegast að afgreiðsla þeirra fari fram eftir að því máli lýkur. Að sjálfsögðu vil ég standa við það samkomulag sem gert hefur verið en mér finnst óeðlilegt að vera að eyða miklum tíma í þessi mál á laugardegi vegna þess að það skiptir engu máli hvort þau eru afgreidd nú eða t.d. í mars á næsta ári. Því finnst mér það óeðlilegt í þingstörfunum núna rétt fyrir jólin og vildi beina því til forustu þingsins hvort ekki sé rétt að fresta þeim þar til þing kemur saman á næsta ári.