Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:29:28 (3456)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég verð að láta það koma fram hér að ég var að heyra það fyrst nú í þessari umræðu af vörum hæstv. forseta að til stæði að halda kvöld- og næturfund. Ég vil eindregið mótmæla þessu og vil spyrja hæstv. forseta hvort hann sé að taka upp alveg ný vinnubrögð að ákveða slíkt án nokkurs samráðs við talsmenn stjórnarandstöðunnar. Ég held að það sé nokkuð fáheyrt og greinilega alveg ný vinnubrögð. Ég spyr: Hvað veldur þessu?
    Ég held að það geti á engan hátt auðveldað þingstörfin þann skamma tíma sem er til jóla að þannig sé á málum haldið. Ég hef haft samráð við stjórnarandstæðinga og formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar um að þessu verður að mótmæla og ég geri það hér með mjög eindregið.