Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 15:55:35 (3477)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar og hversu fáar af þeim eru enn þá komnar fram, þá liggur það fyrir að eina breytingin sem rædd var við 2. umr. fjárlaga var 250 millj. kr. sem kom fram í því frv., sem þá lá fyrir, um breytingu á almannatryggingalögum. Það er eina talan sem enn hefur komið fram til breytingar á fjárlagafrv. sem lagt var fram með 6,1 milljarða halla.
    Þann 23. nóv. sl. voru tilkynntar breytingar sem áttu að hafa í för með sér 1.240 millj. til viðbótar. Eins og ég sagði hefur ekki enn komið neitt fram um það nema ef vera skyldi að hægt væri að reikna þessar 250 millj., sem felast í breytingu á almannatryggingalögum, inn í það.
    Það kom reyndar fram í umræðunni um breytingu á almannatryggingalögunum að menn væru ekkert allt of sammála innan stjórnarinnar. Þegar stjórnarandstaðan var búin að tæta það frv. allmikið niður kom í ljós að einnig meðal stjórnarliða voru athugasemdir og allverulegar athugasemdir. Það er því ekki enn séð fyrir endann á því frv. hvort það verður að lögum.
    Hvað varðar það sem menn hafa hér verið að tala um að nægur tími sé enn fram undan til þess að ræða öll þessi mál, þá vil ég benda á að 1. umr. um frv. um breytingu á almannatryggingalögum tók samtals 8 klukkustundir og 11 mínútur, 1. umr. um breytingu á almannatryggingalögunum. Enn á eftir að ræða allmörg frv. M.a. er eftir 3. umr. um fjárlög, 2. og 3. umr. um fjáraukalög, 2. og 3. umr. um lánsfjárlög, skattabandorm, tollalög, skólamál, húsnæðismál o.fl., áður en við getum farið að ljúka umræðunni eða höfum í raun og veru eitthvað í höndunum um hvernig efnahagsmál næsta árs verða.