Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:23:18 (3519)

     Össur Skarphéðinsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Nú er þetta auðvitað ekki í fyrsta skiptið sem fundur er haldinn vel inn í nóttina. Nú stöndum við frammi fyrir því að það eru mörg mál og erfið sem þingið þarf að afgreiða fyrir jól. Það er ekki bara EES, sem stjórnarmeirihlutinn leggur mikla áherslu á, það eru líka ýmis önnur mál. Þess vegna er nauðsynlegt að nýta tímann sem best. Auðvitað væri æskilegt ef hægt væri að hætta núna og hver héldi til síns heima og hvíldi sig fyrir morgundaginn. Ég vil að það komi fram og get sagt það fyrir hönd stjórnarliðsins að við erum fyrir okkar leyti tilbúin að hætta núna ef hægt er að ná samningum um það hvenær þessi umræða endar. Á sínum tíma var samið um það, 2. des., að til þessarar umræðu þyrfti þrjá daga. Ég tel að ekkert hafi gerst sem raunverulega hafi breytt þeirri tímaþörf og þess vegna segi ég, eins og kom fram á fundi okkar formanna þingflokkanna með forseta fyrr í kvöld, að við erum út af fyrir sig reiðubúin til að hætta núna ef hægt er að ná samkomulagi um það hvenær umræðan endar.
    Staðan er hins vegar einfaldlega þannig að ef það er svo, eins og kom fram í umræðunni í dag, að e.t.v. þyrfti alla daga fram að jólum í þessa umræðu þá sér hver maður að með einhverjum hætti verður að skipuleggja hana. Ef ekki er hægt að ná samkomulagi þá sé ég ekki annað en að við verðum að nota þann tíma sem til er og tala talsvert inn í þessa nótt.