Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:22:23 (3602)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. veit það auðvitað jafn vel og ég að það er ákaflega erfitt að beita þessum öryggisákvæðum vegna þess að önnur ríki geta beitt ráðstöfunum á móti og það verður að leita eftir heimildum hjá Evrópubandalaginu til að fá að beita þeim. Þó hægt sé að gera það einhliða, þá er hægt að koma með, ef ég má kalla það, hefndaraðgerðir á móti. Þessi ákvæði eru því ákaflega haldlítil og geta varla talist jafngild varanlegum fyrirvörum eins og talað var um í upphafi.