Tilhögun þingfundar, nefndafundir o.fl.

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:33:52 (3624)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að ég hefji þessa þingskapaumræðu eftir þau ummæli sem ég viðhafði hér áðan í jólahádegisverði þingmanna og starfsfólks. --- Ég var ekki stödd hér í nótt þegar fulltrúar þingflokkanna töluðust við, en ég vil árétta það sem fram hefur komið hér í umræðum áður að það eru boðaðir nefndarfundir í efh.- og viðskn. kl. sex á hverjum einasta degi alla þessa viku. Þar er verið að afgreiða mjög stór og mikilvæg mál sem tengjast ríkisfjármálunum eins og þingmenn vita og ég vil ítreka það enn og aftur að af minni hálfu kemur ekki til greina að það eigi sér stað samtímis þingfundir og nefndafundir. Ég vil fá að fylgjast með þeirri umræðu sem hér á sér stað um Evrópska efnahagssvæðið og ég veit að það gildir um fleiri nefndarmenn. Við sátum reyndar á okkur í gærkvöldi þegar nefndarfundur teygðist nokkuð vegna þess að við vorum með fullt hús af gestum sem höfðu mjög margt fram að færa í gagnrýni á skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem við máttum að sjálfsögðu ekki missa af en það varð til þess að við misstum hér af einni ræðu í gærkvöldi. En ég vil sem sagt ítreka það, virðulegi forseti, að nefndafundir og þingfundir eigi sér ekki stað á sama tíma.