Framleiðsla og sala á búvörum

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:43:54 (3698)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um það frv. sem hér liggur frammi. Það hefur verið skoðað eilítið í landbn. óformlega með það fyrir augum að það náist að afgreiða meginþætti þess fyrir áramót. Það er mjög mikilvægt að það takist að festa í lög það sem nauðsynlega þarf til þess að hægt sé að fullnusta búvörusamninginn gagnvart mjólkurframleiðslunni. Ég mun ekki fara yfir einstaka efnisþætti hér. Ég mun gera það í hv. nefnd. Ég vil þó nefna eitt atriði sem ég veit að orkar mjög tvímælis og ég held að sé æskilegt að nefndin skoði vel og það er gagnvart þeim rétti sem er í leigu hjá Framleiðslusjóði og kemur inn aftur, þ.e. hver sé réttarstaða handhafa þess réttar þar sem í samningum um leiguna er tekið fram að hann njóti sömu réttarstöðu og allur annar réttur þegar hann komi inn aftur. Þarna er um að ræða verulega hagsmuni fyrir þá sem eru handhafar þessa mjólkurréttar og ég tel að nauðsynlegt sé að það sé skoðað vel hvernig að þeim málum verði staðið.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta mál hér, en vænti þess að við munum fara yfir það í hv. nefnd.