Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:26:17 (3704)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Auðvitað er hárrétt hjá þingmanninum að staða margra fjölskyldna og því miður allt of margra fjölskyldna í landinu er með þeim hætti að fólk ræður ekki við húsnæðiskaup í gegnum húsbréfakerfið. Það er alveg ljóst. En spurningin er: Er þá ekki nær að efla félagslega kerfið? Er eitthvað að því að hér sé öflugt félagslegt kerfi? Við getum spurt: Eru þau viðmiðunarmörk sem þar eru ekki allt of lág? Það er líka hægt að fara þá leiðina að efla það kerfi. En eins og við vitum er líka vandamál að draga mörkin, hvað telst vera þörf fyrir félagslega aðstoð. En þarna er spilar þróun launamála inn í og, eins og ræðumaður benti á, háir vextir og verðlagsþróun hér á undanförnum árum. Þessi þróun er auðvitað mjög í öfuga átt. En við getum líka spurt okkur: Er eitthvað eðlilegt að allt ungt fólk kaupi sér húsnæði? Hvað með leigumarkaðinn? Hér hefur náttúrlega verið mjög undarlegt ástand í leigumálum. Það er eins og það hafi verið hálfgerð skömm að leigja. Erlendis, t.d. á Norðurlöndunum, er það hið eðlilega form að fólk leigir í nokkur ár ef ekki alla ævina og þykir engum mikið. Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga er mjög eðlilegt form. Hér hefur öllum verið beint inn á þá braut að kaupa eigið húsnæði. Ég hef verið mjög gagnrýnin á þá leið. Mér finnst að fólk eigi að geta valið um ýmsa kosti í húsnæðismálum, að leigja eða kaupa, en það er ekki endilega eðlilegt ástand að hver sem er ráði við það að kaupa húseign.