Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 16:58:23 (3790)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér gefst síðar tími til þess að fjalla nánar um efnisatriði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, en það er þó eitt sem ég tel ástæðu til þess að leiðrétta strax þannig að það verði ekki aftur og aftur endurtekið í þessari umræðu. Það varðar skatta og þá ætla ég að minnast á heildarskatta.
    Það er ljóst að á næsta ári verða heildarskatttekjur ríkissjóðs lægri en á undanförnum árum og á yfirstandandi ári verða skatttekjur lægri en á undanförnum árum. Það þarf að fara aftur til ársins 1988 til þess að finna samnefnið við því. Það verður því að vera alveg ljóst að heildarskatttekjur nú eru lægri en allar götur þegar hv. 8. þm. Reykn. var fjmrh. Þetta þarf að koma skýrt fram. Þetta gerist að sjálfsögðu vegna þess að þeir 4 milljarðar sem koma vegna aðstöðugjaldanna renna beint út aftur til baka í gegnum staðgreiðslukerfið og mynda ekki skatttekjur ríkissjóðs, frekar en útsvar sveitarfélaganna. Þetta verða menn að gera sér grein fyrir.
    Það sem hins vegar skiptir kannski máli þegar rætt er um skatta er að stór hluti útgjalda ríkissjóðs fer í það að greiða vexti af gömlum hallarekstri ríkissjóðs, u.þ.b. 10% af útgjöldum ríkisins fer til þess. Ég ætla ekki hér, virðulegi forseti, að fjalla um réttlæti en auðvitað má um það deila hvort það sé réttlátt að taka 4 milljarða af fyrirtækjunum og setja yfir á einstaklinga og út í verð. En af hverju skyldi það vera gert? Það er gert til þess að verja þá sem enga atvinnu hafa. Það er gert til þess að fyrirtækin í landinu geti starfað. Það er gert til þess að útrýma atvinnuleysi hjá þjóðinni og þeir sem verða að borga brúsann erum við sem erum svo heppin að hafa atvinnu og tekjur af því. Þetta vona ég að hv. þm. skilji.