Kvöldfundur

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:17:03 (3805)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Þegar ég kom fyrst inn á þing 1987 urðu mikil mótmæli við þeim hugmyndum að halda kvöldfundi tvö kvöld í röð. Það var nánast ekki gert. Ég man alla vega ekki eftir því frá þeim tíma. Nú er þingmönnum boðið upp á það ekki einungis að halda kvöldfundi heldur næturfundi dag eftir dag eftir dag. Ég hlýt að mótmæla því. Við erum á síðustu dögum fyrir jól og þingmenn, þó sumir kunni að halda annað, eru jú mennskir. Þeir eiga sínar fjölskyldur og vilja fá að undirbúa jólin örlítið með þeim líka. Ég krefst þess að það verði tekið tillit til þess og að ekki verði haldinn kvöldfundur hér í kvöld.