Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:48:10 (3809)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sú aðferð að lækka persónuafsláttinn var samt ekki jafnsiðlaus og áformin um að fella niður barnabætur eða draga úr þeim um 500 millj. ( Gripið fram í: Hún er það.) að mati hv. þm. eins og fram kom í ræðu hennar hér áðan. En ég vil segja að fyrst hv. þm. er núna að tala um það að hægt hefði verið að fara í gegnum þessar aðgerðir og hækka tekjuskattinn án þess að hækka jafnframt skatta á þeim sem eru með á milli 60 og 75 þús. kr. á mánuði þá er hv. þm. meiri galdramanneskja en ég hef kynnst, hef ég þó kynnst henni nokkuð vel af góðu einu í starfi okkar í efh.- og viðskn. Ég held að hún sé farin að lofa upp í ermina á sér.