Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 19:04:55 (3819)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þetta mjög mikið. Ég vil einungis segja að ég skil mjög vel þau viðhorf sem hafa komið fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég skil mjög vel að menn gerist þreyttir á því að vera hér kvöld og langt fram á nætur. Ástæðan þess að formenn þingflokka hafa reynt að ná saman um þinghald, sem felur þetta því miður í sér, virðulegi þm. Guðni Ágústsson, er einfaldlega sú að menn eru að reyna að haga þingstörfum þannig að sér í lagi landsbyggðarþingmenn geti farið til síns heima og notið jóla. Við erum að reyna að koma því svo fyrir að hægt sé með bærilegum hætti að ljúka þingstörfum fyrir jól þannig að ekki þurfi til þess að koma að menn komi milli jóla og nýárs sem í sjálfu sér væri ekkert óeðlilegt miðað við það mikla vinnuálag og þau mikilvægu mál sem fyrir liggja. Það er þess vegna sem við þingflokksformenn höfum í samvinnu við forsetadæmið neyðst til að leggja til að stundum sé gengið á þennan sjálfsagða hvíldarrétt þingmanna. Mér þykir það miður en staðan er þannig að við leggjum þetta til við virðulegan forseta til að tryggja það að þingmenn komist til síns heima, þ.e. á milli jóla og nýárs og þurfi helst ekki að koma hér aftur fyrr en í lok janúar. Þetta vil ég biðja virðulegan þingheim um að reyna að skilja.
    Varðandi það sem hefur komið fram varðandi þingflokk framsóknarmanna þá er auðvitað miður að við aðrir þingflokksformenn höfum ekki borið okkur rétt að. Ég segi það hreinskilnislega að mér var ekki kunnugt um að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson væri varamaður í þingflokksforustunni. Ef ég hefði vitað það hefðum við vitaskuld kallað hann til og munum gera það í framtíðinni ef svo ber undir að við náum ekki til forustu þingflokks framsóknarmanna.