Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 02:41:01 (3879)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. flutti hér í 155. skipti sínar skýringar á því hvers vegna hann gerði þær breytingar á vöxtum sem hann gerði, 155. skipti sinnum d, en d er óþekkt stærð og vegna þess að d er óþekkt stærð liggur ekki fyrir nákvæmlega hver talan er.
    Aftur á móti tók ég eftir því að hæstv. fjmrh. gerir ekki ráð fyrir því að vera oftar í stjórnarandstöðu. Það þóttu mér dálítið merkileg tíðindi. Ég vil síst af öllu verða til þess núna rétt fyrir jólin að ræna hann gleðinni því að þetta er náttúrlega skýringin á því hvað hæstv. fjmrh. hefur verið glaður hér undanfarið þó að umræður hafi verið langar.

    Það er áliðið kvölds og ég get ekki notið þeirra forréttinda að lesa upp úr blaði lýsingu á því hversu lengi ég hef verið í einkageiranum. Ég er ekki á blaði yfir slíka menn sem almennar rannsóknir fara fram um. ( Fjmrh.: Kannski Össur bæti úr því.) Hitt vil ég segja að ég hef stóran hluta af minni ævi unnið á hverju ári bæði í einkageiranum og í opinbera geiranum. Það hefur verið sú lífsbarátta sem ég hef búið við.