Þingfundir

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 12:38:05 (3886)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Það er nú einu sinni svo að við þingmenn erum vanir því að hafa takmarkaðan svefntíma á þessum árstíma og höfum oft þurft að leggja á okkur miklar vökur. Forseti er ekkert undanskilin því að finnast það slæmt en einhvern veginn lendum við alltaf í þessu á hv. Alþingi og reynum að leggja það á okkur að hafa langan vinnutíma til þess að geta, eins og annað fólk í þjóðfélaginu, haldið upp á jólahátíðina. En við höfum ýmis verk sem við þurfum að vinna og afgreiða áður en hátíðin gengur í garð og hver fer til síns heima. Það hefur verið reynt að fara eftir óskum hv. þm. eða þingflokka um hlé og það hefur einmitt verið gert nú. Það var óskað eftir hléi á milli tólf og hálfeitt þar sem þingflokkar vildu hittast fyrir atkvæðagreiðslu. Það var búið að tilkynna að hér yrði atkvæðagreiðsla kl. hálfeitt og það var einnig búið að óska eftir klukkutíma hléi til nefndafunda, milli eitt og tvö að vísu, en gert ráð fyrir því að það gæti breyst ef atkvæðagreiðslan tæki lengri tíma sem er alveg augljóst að hún mun gera. Ef það er eindregin ósk fundarins að hér verði gert matarhlé nú þá er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu forseta því ekki vill forseti verða til þess að hv. þm. geti ekki fengið sína maganæringu þegar nauðsyn krefur. Þessi ósk hefur komið frá hv. 6. þm. Vestf. og ef það verða fleiri óskir um það þá er forseti til reiðu eins og venjulega að verða við slíkum óskum.