Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:40:23 (4037)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að það yrði sérstök atkvæðagreiðsla um þetta framlag vegna þess að ég vil láta það koma hér fram að ég hef talið skynsamlegast að Blönduós og Skagaströnd hefðu með sér aukna samvinnu og þá ekki hvað síst í hafnamálum og að áhersla yrði lögð á að byggja upp eina stóra og vel útbúna höfn í austanverðum Húnaflóa. Ég óttast það að 50 millj. kr. fjárveiting í Blönduóshöfn geri þá von að engu. Ég tel að þessi hafnargerð á Blönduósi sé ekki arðsöm framkvæmd, hvorki fyrir heimamenn né fyrir þjóðarbúið og ég tel að þessu fé mætti verja skynsamlegar með ýmsum hætti, t.d. til hafnargerðar í nærliggjandi byggðum eða þá t.d. til þess að hraða uppbyggingu heilsugæslustöðvar á Blönduósi eða til annarra slíkra framkvæmda. Af þessari ástæðu greiði ég ekki atkvæði um þessa tillögu.