Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:54:05 (4045)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er sérkennilegur málatilbúnaður hér hjá ýmsum þingmönnum Alþb. og þó ekki síst hjá formanni þess. Það er rangt sem hann hélt hér fram að þrír fjárveitinganefndarmenn á síðasta kjörtímabili hefðu hist og gert með sér eitthvert samkomulag. Það var meiri hluti í þeirri virðulegu nefnd og fyrrv. formaður hennar, sem nú er hæstv. heilbrrh., skýrði að sínu leyti niðurstöðu þess máls hér áðan. Ég vek athygli á því að tillaga þessi er flutt af fjárln. Samt hefur einn fjárlaganefndarmaður frá Alþb. væntanlega verið knúinn til þess af sínum flokki að greiða atkvæði gegn sinni eigin tillögu og er það sérkennilegt. Ég vil taka það fram til viðbótar við það sem hér hefur verið sagt að þessi framkvæmd spillir ekki samkomulagi við austanverðan Húnaflóa og hafnasamlag getur verið myndað þar án tillits til þessarar framkvæmdar. En framkvæmdin er nauðsynleg og mun styrkja atvinnulíf á þessu svæði og verða til þess að treysta þá búsetu sem er við austanverðan flóann.
    Ég vil geta þess að nýlega voru opnuð tilboð í þetta verk og lægsta tilboðið var 58% af kostnaðaráætlun þannig að þær kostnaðartölur sem hér hafa verið nefndar eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar. Ég segi já.