Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:03:15 (4071)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram um tiltekið verk á Ísafirði vildi ég heyra það frá hæstv. ráðherra hver afstaða meðeigandans er. Sveitarfélögin eru væntanlega þátttakendur í þessu verki eins og gert er ráð fyrir lögum samkvæmt og væri fróðlegt að vita hvort að sveitarfélagið hefur tekið ákvörðun. Vegna orða ráðherrans um að verið væri að skoða málið sérstaklega í heilbrrn. vildi ég spyrja hvort þá megi líta svo á að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins hafi verið sett til hliðar í málinu. Ef svo er þá tel ég það afskaplega alvarlegan hlut. Ég lít svo á að samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir hafi framkvæmdadeildin afskaplega mikilvægu hlutverki að gegna. Þar er nýlega búið að skipa nýjan forstöðumann og ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir þann mann að fá fremur stuðning og styrk við það erfiða hlutverk sem hann hefur á hendi lögum samkvæmt því að opinberar framkvæmdir eru mikilvægar og ríkið hefur í mörg horn að líta. Þess vegna vildi ég heyra frá hæstv. ráðherra hvort svo megi líta á að framkvæmdadeildin hafi í þessu máli verið sett til hliðar.